Fótbolti

Superligan af stað og Kaupmannahöfn heldur EM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson og Patrick Mortensen fagna en leikmenn AGF eru væntanlega glaðir að boltinn fari aftur að rúlla, eðlilega, í Danmörku.
Jón Dagur Þorsteinsson og Patrick Mortensen fagna en leikmenn AGF eru væntanlega glaðir að boltinn fari aftur að rúlla, eðlilega, í Danmörku. vísir/getty

Danskir knattspyrnuunnendur fengu tvær góðar fréttir í kvöld. Danska úrvalsdeildin getur farið aftur að rúlla og þeir fjórir leikir sem áttu að fara á EM 2020 verða áfram þó að mótið hafi verið fært aftur um eitt ár.

Forsætisráðherrann, Mette Frederiksen, staðfesti í kvöld að efstu tvær deildirnar í Danmörku gæti hafið leik frá og með deginum í dag en í dag var tilkynnt um hvað myndi opna í Danmörku á næstu dögum og vikum.

Engir áhorfendur verða á leikjunum en liðin fá nú að æfa eðlilega frá og með morgundeginum. Reiknað er með að fyrsti leikurinn fari svo fram þann 29. maí en tveir leikir eru eftir af deildarkeppninni og svo tekur við úrslitakeppni.

Þetta voru ekki einu góðu fréttirnar fyrir Danina í dag því skömmu síðar var tilkynnt að Kaupmannahöfn mun áfram vera ein af borgunum þar sem EM 2021 í knattspyrnu fer fram.

Eftir að mótinu var frestað um ár vegna kórónuveirunnar var óvíst hvort að borgin gæti haldið mótið því einnig næsta sumar fer fram hjólreiðakeppnin Tour de France í borginni.

Nú hafa allir málsaðilar hins vegar komið að þeirri niðurstöðu að hægt verður að halda báðar keppnir í Danmörku og því munu Danirnir áfram spila alla sína leiki í riðlinum á þjóðarleikvanginum, Parken.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×