Fótbolti

Poulsen nýr liðsfélagi Kolbeins hjá Ajax

Christian Poulsen var keyptur til Liverpool á sínum tíma af Roy Hodgson sem þá var knattspyrnustjóri liðsins.
Christian Poulsen var keyptur til Liverpool á sínum tíma af Roy Hodgson sem þá var knattspyrnustjóri liðsins. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnumaðurinn Christian Poulsen er genginn í raðir hollenska meistaraliðsins Ajax. Hinn 32 ára gamli leikmaður verður því liðsfélagi íslenska landsliðsframherjans Kolbeins Sigþórssonar næstu tvö árin í það minnsta. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Poulsen verður þar með fimmti danski leikmaðurinn í herbúðum liðsins en með liðinu leika einnig þeir; Christian Eriksen, Lasse Schøne, Viktor Fischer og Nicolai Boilesen.

Poulsen hefur leikið með franska liðinu Evian en hann gefur ekki lengur kost á sér í danska landsliðið. Poulsen hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu frá því hann fór frá enska úrvalsdeildarliðinu Liverpool en þar náði hann sér aldrei á strik. Poulsen hefur komið víða við á ferlinum og er Holland sjöunda landið þar sem hann leikur sem atvinnumaður.

Áður hafði Poulsen leikið með eftirtöldum liðum: FC Kaupmannahöfn (Danmörk), Schalke 04 (Þýskaland), Sevilla (Spánn), Juventus (Ítalíu), Liverpool (England) og Evian Thonon Gaillard FC (Frakkland).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×