Erlent

Leggja meira fé í leit að Madeleine McCann

Breska innanríkisráðuneytið hefur samþykkt 85 þúsund punda aukafjárveitingu, um tólf milljónir króna, til lögreglunnar þar í landi til að halda áfram rannsókn á hvarfi stúlkunnar Madeleine McCann.

Madeleine hvarf sporlaust úr hótelíbúð fjölskyldu sinnar í Praia da Luz í Portúgal í maí 2007 þegar foreldrar hennar höfðu yfirgefið íbúðina til að borða á veitingastað og skilið börn sín eftir. Madeleine var þriggja ára á þeim tíma sem hún hvarf.

Rannsókn bresku lögreglunnar verður nú haldið áfram að minnsta kosti fram í september á þessu ári.

Hvarf Madeleine vakti heimsathygli á sínum tíma. Lögregla í Portúgal hætti rannsókn sinni árið 2008, en breska lögreglan hóf síðar eigin rannsókn á hvarfinu.

Kate og Gerry McCann, foreldrar Madeleine, hafa heitið því að hætta aldrei leit sinni að dótturinni.

Rannsókn bresku lögreglunnar hefur nú kostað um 11,1 milljón punda í heildina, eða um 1,5 milljarði króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×