Innlent

Óvinnufært vegna sóts

Sót og óþrifnaður barst inn í nokkur fyrirtæki í nágrenni við Hringrás í brunanum í fyrrinótt. Bjarni Lúðvíksson, forstjóri Kassagerðarinnar, segir að ekki verði unnið í skemmu fyrirtækisins fyrr en búið sé að reykræsta hana og hreinsa. Hann vonast til þess að starfsemin komist á fullt í dag en um 50 starfsmenn af 140 fóru ekki til vinnu í gær vegna þessa. Bjarni segir erfitt að meta tjónið af þessu en fyrirtækið sé tryggt fyrir svona óhöppum. Talsvert hafi verið af hálfunnu hráefni á gólfum, sem hann viti ekki hvort orðið hafi fyrir skemmdum. Losna þurfi við reykjarlyktina úr húsinu til að hægt sé að meta tjónið, en það fari líka eftir því hversu lengi starfsemin komi til með að liggja niðri. Það komi helst niður á viðskiptavinum þess ef fyrirtækið verði of lengi frá og geti ekki útvegað þeim vörur. Hann segir að það sé tryggingafélagsins en ekki sitt að ákveða hvort gerð verði bótakrafa gegn Hringrás. Bjarni segir að hlutirnir hafi þróast betur en á horfðist í fyrrinótt. "Við óttuðumst um tíma að eldurinn breiddist út og næði í hús Kassagerðarinnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×