Innlent

Fengu Ný­sköpunar­verð­laun forsetans fyrir þróun á al­grími

Atli Ísleifsson skrifar
Frá verðlaunaafhendingunni á Bessastöðum fyrr í dag.
Frá verðlaunaafhendingunni á Bessastöðum fyrr í dag. Forsetaembættið
Guðni Th. Jóhannesson forseti afhenti þeim Eysteini Gunnlaugssyni, Hönnu Ragnarsdóttur, Heiðari Má Þráinssyni og Róberti Inga Huldarssyni Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.

Sigurverkefni þeirra heitir „Þróun á algrími til að finna örvökur í sofandi einstaklingum með því að skoða önnur lífmerki en heilarit og sannprófun á aðferð til að greina orsakir kæfisvefns með stóru gagnasafni.“

Eysteinn er meistaranemi í tölvunarfræði við Kungliga Tekniska högskolan í Svíþjóð, Hanna nemi við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík, Heiðar Már nemi á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, og Róbert Ingi nemi á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. Leiðbeinendur þeirra voru þau Halla Helgadóttir og Jón Skírnir Ágústsson, yfirmenn á rannsóknarsviði Nox Medical.

Verðlaunin eru veitt námsmönnum sem eru talin hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna síðastliðið sumar. Alls voru fimm verkefni tilnefnd í ár.

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996 og eru því nú veitt í 24. sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×