Erlent

Rústaði anddyri hótels vegna vangoldinna launa

Birgir Olgeirsson skrifar
Manninum var heitt í hamsi vegna launa sem hann hafði ekki fengið greitt.
Manninum var heitt í hamsi vegna launa sem hann hafði ekki fengið greitt. Twitter
Lögregla í Liverpool hefur biðlað til almennings eftir upplýsingum eftir maður á gröfu vann skemmdarverk á byggingu þar í borg nýverið. Myndband af verknaðinum fór í mikla dreifingu á samfélagsmiðlum í gær en þar sést maður á appelsínugulri gröfu aka gröfunni inn í anddyri hótels og rústa því algjörlega.

„Þetta gerist þegar fólk borgar ekki launin, félagi,“ heyrist maður segja í myndbandinu.

Annað myndband af atvikinu, sem tekið var upp inn á hótelinu, rataði einnig á Netið en þar heyrist maðurinn í gröfunni öskra á forsvarsmenn hótelsins að hann ætti inni hjá þeim laun.

„Sex hundruð pund. Eina sem þið þurftuð að gera var að borga mér sex hundruð pund,“ heyrist maðurinn hrópa.

Þá fór þriðja myndbandið af þessum verknaði einnig í dreifingu en þar sést maðurinn fara úr gröfunni og flýja af vettvangi.

Lögreglan í Liverpool hefur staðfest að hún fékk tilkynningu um málið inn á borð til sín síðdegis í gær.

Fyrstu upplýsingar benda til þess að engan sakaði þegar þetta átti sér stað.

Hótelið sem um ræðir nefnist Travelodge sem rekur hótel víðs vegar um Bretlandseyjar. Forsvarsmenn hótelkeðjunnar báðust undan viðtali en tóku fram að starfsemi hótelsins væri ekki hafin á þeim stað sem skemmdaverkið var unnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×