Formaður félagsins, Guðbjörg Pálsdóttir, flutti ávarp ásamt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Ölmu Möller landlækni. Björg Þórhallsdóttir, söngkona og hjúkrunarfræðingur tók lagið og nýstofnaður kór hjúkrunarfræðinga flutti nokkur lög við undirleik Hilmars Arnar Agnarssonar. Ari Bragi Kárason lék á trompet og Ari Eldjárn var með uppistand.

Í ávarpi formannsins kom meðal annars fram að hjúkrunarfræðingar hafi barist frá upphafi fyrir því að hjúkrunarmenntun væri í hæsta gæðaflokki hér á landi og benti á að í dag er hátt hlutfall hjúkrunarfræðinga sem hafa lokið framhaldsmenntun hér á landi.
Doktorsmenntaðir hjúkrunarfræðingar eru orðnir rúmlega 40 talsins og nú er boðið upp á doktorsnám við báðar hjúkrunarfræðideildir háskólanna. Þá eru yfir 100 sérfræðingar í hjúkrun á Íslandi.

Þá sagði formaðurinn hjúkrunarfræðinga horfa til framtíðar með bjartsýni.
„Við stefnum fram á veginn og horfum til nýrrar hjúkrunaraldar með mikilli bjartsýni. Það er ljóst að þróun heilbrigðismála á 21. öldinni mun hafa það í för með sér að hjúkrunarfræðingar munu í framtíðinni gegna enn stærra hlutverki innan heilbrigðiskerfisins en nú er.“
Aldarafmælinu verður fagnað með fjölbreyttum viðburðum út árið. Hægt er að kynna sér þá heimasíðu félagsins, www.hjukrun.is