Innlent

Verkefnið ekki óyfirstíganlegt

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
VR, atkvæðagreiðsla um verkfall. Ragnar Þór Ingólfsson
VR, atkvæðagreiðsla um verkfall. Ragnar Þór Ingólfsson
VR vill leita allra leiða til að forðast verkföll. Deilan við Samtök atvinnulífsins (SA) sé vel leysanleg en boltinn sé sem stendur hjá viðsemjendum þeirra. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

„Við köstuðum boltanum út í liðinni viku og vonumst eftir því að komast aftur að borðinu en það er undir SA komið hvenær það getur orðið. Það er ofboðslega knappur tími til stefnu og ef menn ætla að forða verkföllum þá þarf að setjast niður,“ segir Ragnar Þór.

Atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun í hópferðafyrirtækjum á félagssvæði VR, svo og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og Hveragerði, lauk á þriðjudag. Rétt rúmur meirihluti samþykkti boðunina. Ragnar Þór segir að sem stendur stoppi allt á vinnutímabreytingum sem SA hefur lagt til.

„Ég leyfi mér að vona, þó staðan sé svört, að þetta fari eins og árið 2015. Þá var þetta klárað á þremur dögum þegar menn voru tilbúnir að taka stöðuna alvarlega, setjast niður og semja. Það blasir við mér að þetta er leysanlegt verkefni og samningsvilji er sannarlega til staðar,“ segir Ragnar Þór.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×