Erlent

Norðmaður og fjórir Svíar fórust í flugslysinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Karoline Aadland var 28 ára og starfaði hjá norska Rauða krossinum.
Karoline Aadland var 28 ára og starfaði hjá norska Rauða krossinum.
Einn Norðmaður og fjórir Svíar voru á meðal þeirra 157 sem fórust í flugslysinu sem varð í Eþíópíu um helgina. Ríkisborgarar frá yfir þrjátíu löndum voru um borð í vélinni en staðfest hefur verið að enginn komst lífs af úr slysinu.

Flugvél eþíópíska flugfélagsins Ethiopian Airlines, ET302, var á leið frá Addis Ababa til kenísku höfuðborgarinnar Naíróbí þegar hún hrapaði skömmu eftir flugtak á sunnudagsmorgun.

Norðmaðurinn sem fórst hét Karoline Aadland, 28 ára starfsmaður Rauða krossins í Noregi. Rauði krossinn staðfesti í gær í yfirlýsingu að Aadland væri saknað og sagði jafnframt að fjölskylda hennar hefði verið látin vita.

Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá því að Aadland hafi verið á leið frá Kenía til Búrúndí á vegum Rauða krossins, þar sem hún starfaði í fjármáladeild. Hún hafði starfað við ýmis mannúðarmál á ferlinum, til að mynda fyrir Rauða krossinn og hjálparsamtökin Unicef. Þá hafði hún komið víða við vegna vinnu sinnar og náms, m.a. í Frakklandi, Kenía, Suður-Afríku og Malaví, en hún útskrifaðist úr viðskiptaháskólanum í Bergen í fyrra.

Þá hefur verið staðfest að fjórir sænskir ríkisborgarar voru um borð í vélinni en þeir hafa enn ekki verið nafngreindir. Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar kom á framfæri samúðarkveðjum til aðstandenda hinna látnu í yfirlýsingu í gær.


Tengdar fréttir

Kínverjar kyrrsetja Boeing 737 Max 8

Kínversk flugmálayfirvöld hafa ákveðið kyrrsetja Boeing 737 Max 8 þotur kínverskra flugfélaga, eftir hið mannskæða flugslys sem varð í Eþíópíu um helgina.

Flestir hinna látnu frá Kenía og Kanada

Skrifstofa forsætisráðherra Eþíópíu staðfesti í dag að allir sem voru um borð í flugvél Ethiopian Airlines létust þegar vélin hrapaði á leið sinni frá Addis Ababa til kenísku höfuðborgarinnar Naíróbí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×