Erlent

Fannst fyrir tilviljun á heimili grunaðs barnaníðings eftir að hafa verið saknað í rúm tvö ár

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drengurinn fannst í þýska bænum Recklinghausen á föstudag.
Drengurinn fannst í þýska bænum Recklinghausen á föstudag. Vísir/getty

Þýskur unglingspiltur, sem saknað hafði verið í tvö og hálft ár, fannst heilu og höldnu á heimili karlmanns á föstudag. Lögregla var við leit á heimili mannsins vegna gruns um að hann stæði að dreifingu barnakláms og fann drenginn þar fyrir tilviljun.

Í tilkynningu frá lögreglu í bænum Recklinghausen í vesturhluta Þýskalands, þar sem drengurinn fannst, segir að lögreglumenn hafi fundið piltinn inni í skáp á heimili mannsins. Rannsókn hafi leitt í ljós að um hafi verið að ræða umræddan dreng sem ekkert hafði spurst til í rúm tvö ár.

Deutsche Welle hefur eftir lögreglu að ekkert bendi þó til þess að drengnum hafi verið haldið á heimili mannsins, sem er á fimmtugsaldri, gegn vilja sínum. Pilturinn er nú í umsjá lögreglu en hann hefur ekki verið nafngreindur á grundvelli þýskra laga. Maðurinn er jafnframt sagður grunaður barnaníðingur í frétt miðilsins.

Tveir voru handteknir á vettvangi, umræddur húsráðandi og faðir hans sem býr á heimilinu. Þeim síðarnefnda var síðar sleppt en sá fyrrnefndi var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um kynferðisbrot. Þá lagði lögregla hald á raftæki í hans eigu sem fundust á heimilinu.

Í frétt Deutsche Welle segir að síðast hafi spurst til piltsins þegar hann bjó í athvarfi fyrir heimilislausa árið 2017. Félagsráðgjafar tilkynntu hvarf hans til yfirvalda en leit bar ekki árangur.

Móðir drengsins ræðir málið í samtali við þýska dagblaðið Bild. Hún segir í samtali við miðilinn að hún hafi varla þekkt son sinn þegar hún hitti hann. Þá segir hún hann hafa litið út eins og „brotinn, gamall maður“. Þá kveður hún víst að maðurinn sem handtekinn var hafi haft drenginn algjörlega á valdi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×