Innlent

Jóhann Eyfells er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jóhann Eyfells lést í Texas í gær.
Jóhann Eyfells lést í Texas í gær. Skjáskot úr An Afternoon with Jóhann Eyfells

Myndhöggvarinn Jóhann Eyfells er látinn, 96 ára að aldri. Hann lést á hjúkrunarheimili í Fredericksburg í Texas í Bandaríkjunum í gær, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Á vef Listasafns Reykjavíkur kemur fram að Jóhann hafi fyrst lagt stund á arkitektúr og útskrifast af því sviði árið 1953. Ellefu árum síðar hafi hann útskrifast með meistaragráðu í myndlist.

„Árið 1969 var hann ráðinn sem prófessor í skúlptúr við University of Central Florida. Hann hefur æ síðan verið búsettur í Bandaríkjunum, lengst af í Florída.

Jóhann hefur notið umtalsverðrar virðingar fyrir verk sín og vinnubrögð. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1993 ásamt Hreini Friðfinnssyni. Hann byrjaði snemma á sjötta áratugnum að skapa abstrakt skúlptúra sem byggðust á tilraunum í eðlis- og efnafræði og sérstaklega umbreytingu málma við steypu. Tilraunir leiddu Jóhann að stíl sem hann kallar „receptúalisma“ en þar renna að hans sögn þrjú kerfi í eitt: Vísindi, heimspeki og dulhyggja.“

Íslandsvarðan sem stendur við Sæbraut í Reykjavík. Listasafn Reykjavíkur

Jóhann kynntist eiginkonu sinni, Kristínu Halldórsdóttur myndlistarmanni, á Kaliforníuárunum, en Kristín lést árið 2002. Á sjöunda áratugnum voru hjónin mjög áberandi í íslensku listalífi.

Meðal listaverka Jóhanns er bronsverkið Íslandsvarðan sem stendur við Sæbraut í Reykjavík.

Sonur Jóhanns og Auðar Halldórsdóttur er Ingólfur Eyfells, fæddur 1945, verkfræðingur í Garðabæ.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.