Innlent

Röð út úr dyrum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Röð var út úr dyrum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar þegar byrjað var að taka á móti umsóknum um jólaaðstoð. Erlendum ríkisborgurum, sem eru nýlega komnir til landsins, hefur fjölgað ört í hópi þeirra sem sækja um.

Líkt og fyrri ár aðstoðar Hjálparstarf kirkjunnar efnalitlar fjölskyldur við að halda jólin hátíðleg. Fólk fær meðal annars inneignarkort fyrir matvörum, jólaföt og jólagjafir. Byrjað var að taka á móti umsóknum um jólaaðstoð í gær og er hægt að sækja um út morgundaginn.

Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.
Þegar hefur fjöldi umsókna borist. Í gær og í dag mættu margir til að sækja um og um tíma náði röðin út á götu. „Það er sem sagt fjölgun í þessum innflytjendahópi, í hópi flóttafólks, og það eru fjölskyldur fyrst og fremst. Af því við erum líka fyrst og fremst að aðstoða fjölskyldur. Þetta er hópur náttúrulega sem kemur með oft litla menntun, litla getu bæði í íslensku og ensku og er á einmitt annað hvort lágmarkslaunum og eða lágmarksframfærslu og er að borga mjög háa leigu á almennum markaði. Þá bara ná endar ekki saman,“ segir Sædís Arnardóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

Í fyrra fengu um þrjú þúsund og fjögur hundruð manns aðstoð fyrir jólin. Þeir sem sækja um þurfa að skila inn göngum sem sýna tekjur og útgjöld frá síðustu mánaðarmótum. Margir sjálfboðaliðar taka þátt í undirbúa jólaastoðina og þá eru margir tilbúnir að gefa bæði peninga og hluti sem nýtast. „Við náttúrulega erum á fullu núna bara að taka á móti og gefa eins og jólafatnað fyrir börn og fullorðna og þannig að við þiggjum það alltaf og eins jólagjafir. Það kemur sér vel og auðvitað alltaf útifatnaður á börn. Það er eitthvað sem þarf alltaf,“ Sædís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×