Innlent

Starfslokasamningur Haraldar upp á 57 milljónir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Haraldur Johannessen, fráfarandi ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen, fráfarandi ríkislögreglustjóri. Vísir/vilhelm

Dómsmálaráðuneytið áætlar að kostnaðarmat starfslokasamnings Haraldar Johannessen, fráfarandi ríkislögreglustjóra, hljóði upp á rúmar 47 milljónir króna án launatengdra gjalda. Með launatengdum gjöldum er kostnaðurinn hinsvegar 56,7 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fjárlaganefndar, sem greint var frá í morgun.

Í svarinu er jafnframt tíundað til samanburðar að laun Haraldar út skipunartímann, þ.e. til 1. mars 2023, væru um 105 milljónir króna með launatengdum gjöldum. Haraldur lætur af störfum um næstu áramót.

Dómsmálaráðuneytið segir að ekki sé gert ráð fyrir neinni sérstakri fjármögnun til að standa straum af starfslokasamningi Haraldar, hann rúmist innan fjárveitinga málaflokksins.

Eins og fram kom í fréttum í gær mun Haraldur halda óskertum launum ríkislögreglustjóra í 24 mánuði; af því tímabili eru þrír mánuðir með vinnuskyldu, 15 mánuðir með „mögulegri vinnuskyldu“ og 6 mánuðir án nokkurrar vinnuskyldu sem biðlaun.

Í svari ráðuneytisins er tiltekið að starfslok Haraldar verði að skoða „í ljósi allra aðstæðna,“ eins og það er orðað. Upp hafi verið komið erfið staða innan lögreglunnar og er þar vísað til vantraustsyfirlýsingarinnar sem undirrituð var af átta af níu lögreglustjórum landsins.

Haraldur hafi þá „ákveðið að stíga fram og það frumkvæði er lykill að lausn þess vanda,“ segir í svarinu. Enginn annar grundvöllur hafi verið að starfslokum enda er embættismanni ekki vikið úr starfi „nema lögmætar og mjög ríkar ástæður séu fyrir hendi.“ Haraldur hafi ekki „brotið af sér með neinum þeim hætti að heimilt væri að víkja honum úr starfi,“ eins og í svarinu segir.

Það má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Fjárlaganefnd óskar svara um starfslokasamning

Fjárlaganefnd Alþingis hefur óskað eftir svörum frá dómsmálaráðherra um starfslokasamning ríkislögreglustjóra. Nefndin vill meðal annars vita hvernig samningurinn sé fjármagnaður og hver heildarupphæðin sé
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.