Innlent

Sigurður Ingi er sár og reiður

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigurður Ingi fékk fjölmargar spurningar úr sal, meðal annars um nýjan flugvöll í Hvassahrauni, nýja brú yfir Ölfusá og um jólabónus þingmanna.
Sigurður Ingi fékk fjölmargar spurningar úr sal, meðal annars um nýjan flugvöll í Hvassahrauni, nýja brú yfir Ölfusá og um jólabónus þingmanna. Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og ráðherra segist verða sár og reiður í hvert sinn, sem hann heyrir að einhverjir Íslendingar feli peninga sína í skattaskjóli. „Hættið þessu og deilið kjörum með okkur hinum,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi var gestur í vöfflukaffi hjá Framsóknarfélagi Árborgar í gær þar sem hann fjallaði um stöðuna í landsmálunum og fór yfir helstu fréttir úr hans ráðuneyti. 

Sigurður Ingi kom víða við í ræðu sinni í vöfflukaffi framsóknarmanna í Árborg.Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Sigurður Ingi var ekki að skafa af hlutunum og varð hvass þegar hann fór að tala um peninga og skattaskjól.

„Við höfum alveg gjörbreytt samfélag, sérstaklega efnahagslega. Við sem sagt flytjum orðið út peninga en ekki inn peninga, það er áhugavert, svo fremi sem þeir eru ekki settir í helvítis skattaskjólin, aflandsfélögin.

Ég bara skil ekki fólk og ég verð bara sár og reiður í hvert sinn þegar maður uppgötvar það að einhverjir landar okkar þurfa að græða svo mikið að þeir þurfa að fela peningana sína á eignarhaldi á svona apparötum,“ sagði Sigurður Ingi og hélt áfram.

„Hættið þessu, við verðum bara að segja þetta við fólk ef við vitum um einhvern, hættið þessu, af hverju deilið þið ekki kjörum með okkur hinum, hættið þessu rugli, venjulegt fólk, við skiljum þetta ekki,“ sagði Sigurður Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×