Innlent

Telur hugsan­legt að Ís­lendingar séu heimskari en gerist og gengur

Jakob Bjarnar skrifar
Kári Stefánsson telur skelfilegar niðurstöður í Pisa-könnun geta bent til þess að Íslendingar séu fremur heimsk þjóð.
Kári Stefánsson telur skelfilegar niðurstöður í Pisa-könnun geta bent til þess að Íslendingar séu fremur heimsk þjóð. Decode

Skelfilegar niðurstöður úr PISA-könnun gæti hugsanlega bent til þess að Íslendingar séu heimskari en gerist og gengur.



Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, en hann var meðal gesta í sjónvarpsþættinum Silfrið á Ríkisútvarpinu nú fyrr í dag þar sem könnunin var til umræðu. En nýlega var greint frá því að Norðurlöndin öll eru fyrir ofan Ísland í öllum flokkum auk þess sem að Ísland er undir OECD-meðaltali í öllum flokkum.



„Það sem skelfir mig þegar ég hugsa um þetta er sú staðreynd að tungumálið er það tæki sem við hugsum með. Þannig að þegar við erum að tala um að íslenskum börnum gangi illa að skilja það sem þau lesa þá læðist að manni sá grunur að íslenskir krakkar kunni kannski að vera ekki alveg eins vel gefnir eins og krakkar í öðrum löndum,“ sagði Kári.



Hann benti á að ekki megi gleyma því að við séum öðruvísi en aðrar þjóðir. Við erum sérstök þjóð.

„Er sá möguleiki [fyrir hendi] að við séum einfaldlega vitlaus þjóð?“

Stjórnandi þáttarins, Egil Helgason og aðrir gestir þáttarins, töldu þetta fyndið en Kári tók af öll tvímæli; honum er rammasta alvara með þessar vangaveltur sínar, hann væri ekki að reyna að vera fyndinn.



„Þetta er ekkert til að hlæja að. Þetta er raunverulegt. Þú ert annars vegar með erfðaþáttinn og hins vegar umhverfisþáttinn í getu okkar endanlega.“



Að þessu sögðu taldi Kári að rekja mætti hluta vandans til þess að við nýtum grunnskólana ekki nægjanlega vel til að halda utan um ungviðið, sem er sá staður sem helst megi jafna aðstöðumun. Þar eigi að leitast við að dýpka lesskilning til dæmis með því að halda að þeim góðum bókmenntum.


Tengdar fréttir

Kynnti aðgerðir til að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunar

Frammistaða í lesskilningi á Íslandi er mun lakari en á öðrum Norðurlöndum og áfram nokkuð undir meðaltali OECD samkvæmt nýrri PISA-könnunar. Ríflega fjórðungur nemenda sem tóku þátt í könnuninni ná ekki grunnhæfniviðmiðum í lesskilningi. Menntamálaráðherra kynnti viðbragðsaðgerðir í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×