Innlent

Rauð veðurviðvörun í fyrsta sinn

Jóhann K. Jóhannsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Rauð veðurviðvörun tekur gildi klukkan 17 á morgun á Ströndum og Norðurlandi vestra.
Rauð veðurviðvörun tekur gildi klukkan 17 á morgun á Ströndum og Norðurlandi vestra. veðurstofa íslands

Rauð veðurviðvörun mun taka gildi í fyrsta sinn hér á landi klukkan 17 á morgun og nær hún til Norðurlands vestra og Stranda. Gildir viðvörunin til klukkan eitt aðra nótt að sögn Elín Bjarkar Jónasdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Fram til klukkan 17 verður appelsínugul veðurviðvörun í gildi í þessum landshluta en á vef Veðurstofunnar segir eftirfarandi um rauðu viðvörunina:

„Spáð er norðan ofsaveðri eða fárviðri (25 til 33 m/s) með mikilli snjókomu og skafrenningi. Búast má við víðtækum samgöngutruflunum og tjóni og/eða slysum ef aðgát er ekki höfð. Ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda, allt að 10 m. ölduhæð og líkur á að smábátar geta laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum.“

Þá hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjóra á landinu lýst yfir óvissustigi á morgun vegna veðursins sem mun skella á landinu í fyrramálið. Frá þessu er greint á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.

Viðvaranir taka gildi um allt land strax í fyrramálið og eru í gildi fram á miðvikudag. Á Vestfjörðum, Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Norðurlandi og hálendinu verður í gildi appelsínugul viðvörun en á Austfjörðum og Suðausturlandi er viðvörunin gul.

Veðrið mun að öllum líkindum hafa mikil áhrif á samgöngur. Þannig hefur Vegagerðin gefið það út að mögulega verði öllum leiðum út af höfuðborgarsvæðinu lokað eftir hádegi á morgun og þá búast við að strax í fyrramálið verði Holtavörðuheiði lokað sem og vegunum um Þverárfjall og Vatnsskarð.

Þá hefur Icelandair aflýst öllu flugi sínu eftir hádegi á morgun, hvort sem um er að ræða brottfarir frá Keflavíkurflugvelli eða komur hingað til lands.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Öllu Ameríkuflugi aflýst á morgun

Öllu flugi Icelandair til Bandaríkjanna síðdegis á morgun hefur verið aflýst samkvæmt upplýsingum á vef Keflavíkurflugvallar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.