Innlent

Öllum leiðum út úr höfuð­borginni mögulega lokað í um sólar­hring

Atli Ísleifsson skrifar
Búist er við aftakaveðri á nær öllu landinu á morgun.
Búist er við aftakaveðri á nær öllu landinu á morgun. vísir/vilhelm

Mögulegt er að öllum leiðum út úr höfuðborgarsvæðinu verði lokað í um sólarhring frá hádegi á morgun. Áður hafði Vegagerðin sagt á heimasíðu sinni að búist væri við að leiðunum yrði lokað. Orðalagið hefur verið mildað í uppfærðri tilkynningu á vef Vegagerðarinnar og nú segir að lokanir séu mögulegar.„Líkast til höfum við kveðið full sterkt að orði í síðasta pósti og þótt talað hafi verið um áætlaðar lokanir hafa margir skilið það sem svo að lokanirnar væru fast ákveðnar,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Er áréttað að Vegagerðin muni að sjálfsögðu miða aðgerðir sínar við aðstæður hverju sinni, vonandi þurfi ekki að loka öllum þessum vegum - eða loka þeim svona lengi – en rétt sé að vara við og vera við öllu búin.Búist er við aftakaveðri á nær öllu landinu á morgun og hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun nær alls staðar.

Líklegt er að öllum helstu leiðum út úr Reykjavík verði lokað um hádegi á morgun.vísir/hjalti

Á vef Vegagerðarinnar segir að Suðurlandsvegur (frá Rauðavatni að Hveragerði), bæði um Hellisheiði og Þrengsli, verði líklegast lokaður frá hádegi á morgun, þriðjudag, til klukkan 13 á miðvikudag. Sömu sögu er að segja um Reykjanesbraut.Vegagerðin gerir sömuleiðis ráð fyrir að Vesturlandsvegi um Kjalarnes verði lokað klukkan 13 á morgun og í sólarhring.Að neðan má sjá áætlun Vegagerðarinnar um lokanir eins og staðan er núna en tekið skal fram að ef veðurspá breytist – eða aðrar aðstæður – geti lokanir tekið mið af því.Fréttin hefur verið uppfærð eftir uppfærða tilkynningu frá Vegagerðinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.