Innlent

Tekist á um dagskrá þingfunda fyrir jólafrí

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Þrjú mál, sem voru á dagskrá þingfundar í dag, voru tekin út af dagskrá fundarins nú undir kvöld eftir að stjórnarandstaðan hafði sniðgengið atkvæðagreiðslur á Alþingi til að reyna að fá forseta Alþingis til að semja við sig um hvaða mál komist á dagskrá þingsins fyrir jólahlé. Það mun vera nokkuð sjaldgæft að stjórnarandstaðan grípi til þessa ráðs.

Sjá einnig: Stjórnarandstaðan sniðgengur atkvæðagreiðslur

Umræða fór fram á þingi í dag um flest þau mál sem voru á dagskrá nema þrjú; frumvarp dómsmálaráðherra um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um skráningu raunverulegra eigenda og fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra. Samþykkja þyrfti afbrigði til að taka þessi mál á dagskrá þar sem þau komu inn til þingsins eftir að tilskilinn frestur rann út.

Þingfundi var frestað í fjórgang í dag eftir að stjórnarandstaðan kom í veg fyrir að unnt væri að fara í atkvæðagreiðslur en loks klukkan 18:45 í kvöld tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, að fyrrnefndum þremur málum yrði frestað sem og þingfundi en næsti þingfundur er klukkan 13:30 á morgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu lagði stjórnarandstaðan fram tillögur að málum sem hún vill koma á dagskrá fyrir jólafrí á fundi með forseta þingsins nú undir kvöld. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort stjórnarandstaðan nái einhverjum af sínum málum fram eða hvort og þá hvaða mál ríkisstjórnarinnar, þar sem samþykkja þarf afbrigði, komist á dagskrá fyrir jólahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×