Innlent

Ökuníðingi á vespu veitt eftirför sem lauk á slysadeild

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn var loks stöðvaður við Kringluna.
Maðurinn var loks stöðvaður við Kringluna. Vísir/vilhelm
Lögreglumenn veittu fullorðnum ökumanni vespu eftirför frá Skeifunni að Kringlunni í nótt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild að lokinni eftirförinni og er grunaður um fjölda umferðarlagabrota.

Í dagbók lögreglu segir að lögreglumenn hafi ætlað að hafa afskipti af ökumanni vespunnar við Skeifuna rétt fyrir klukkan þrjú í nótt en hann stoppaði ekki.

Hófst þá eftirför frá Skeifunni að Kringlunni, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á hjólinu, rann í hálku og datt. Ökumaðurinn var hjálmlaus og fékk sár á höfuðið. Honum var ekið á slysadeild til aðhlynningar. 

Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og fjölda umferðarlagabrota. Þannig hafi hann í tvígang ekið gegn rauðu ljósi, einu sinni ekið gegn einstefnu, auk þess sem hann ók eftir gangstéttum og göngustígum. Þá er bifhjól hans, vespan umrædda, bæði óskráð og ótryggt.

Maðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku og skráningu upplýsinga. Þá var hjólið fært á lögreglustöð þar sem ekki er vitað um eiganda þess. Þá er þess sérstaklega getið í dagbók lögreglu að ekki hafi verið um ungling að ræða heldur „mann sem er að nálgast fimmta tuginn.“

Lögregla stöðvaði fleiri ökumenn í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Þá var einn ökumaðurinn handtekinn í Laugardalnum grunaður um akstur gegn rauðu ljósi og vörslu og sölu fíkniefna. Hann var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þá var ung kona í annarlegu ástandi handtekin í Breiðholti á tólfta tímanum. Konan er grunuð um eignaspjöll og var vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×