Innlent

Þingmenn vilja gefa dreifingu ösku frjálsa hér á landi

Birgir Olgeirsson skrifar
Tólf þingmenn vilja gefa dreifingu ösku frjálsa hér á landi. Mjög strangar reglur gilda um slíka dreifingu í dag. Verði frumvarpið að lögum yrði að virða óskir hins látna.

Í dag eru um 53 prósent útfara á höfuðborgarsvæðinu bálfarir og talið að það hlutfall muni hækka á komandi árum. Lögin um líkbrennslu kveða á um að koma skuli öskunni í duftker sem skylt er að varðveita í kirkjugarði eða löggiltum grafreit. Leita þarf til sýslumanns til að fá að dreifa ösku, en þá aðeins yfir öræfi eða sjó liggi ótvíræð ósk hins látna fyrir.

Þessu vill Bryndís Haraldsdóttir breyta og hefur lagt frumvarp þess efnis fyrir Alþingi sem þingmenn úr öllum flokkum nema Miðflokknum styðja.

„Ég vil gefa dreifingu ösku frjálsa. Mér finnst eðlilegt að taka þessi lög til endurskoðunar og auka frjálsræði þannig að fólk geti leyft sér að dreifa öskunni á fleiri stöðum og jafnvel merkja staðinn þar sem öskunni er dreift. Það þekkist á Norðurlöndunum í kringum okkur. Öskunni er mögulega dreift í fallegum skógarlundi og fólk getur sett minningarplatta á tré,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Stuðningsmönnum dreift á Old Trafford

Hún segir lögin í dag býsna úrelt. Íslendingar ganga harðast fram í reglum í kringum þetta sé litið til Norðurlandanna.

„Svo þekkjum við það úr kvikmyndum frá Bandaríkjunum, þar virðast reglurnar ekki vera miklar ef einhverjar. Á Bretlandseyjum hefur gallhörðum stuðningsmönnum verið dreift yfir heimavöll Manchester United, Old Trafford. Þetta er mjög mismunandi milli landa en hér erum við í ansi gömlum og íhaldssömum lagaramma sem ég tel tímabært að breyta.“

Verður þá hægt að dreif ösku hvar sem er á Íslandi?

„Kannski, en auðvitað verður ösku ekki dreift í garðinum heima hjá þér nema þú leyfir það. Grunnurinn að þessu er að ósk hins látna fái að ráða og auðvitað þarf að gæta virðingar þegar ösku er dreift og það er tekið á því í frumvarpinu.“



Mætti geyma ömmu á arinhillunni

Í lögunum í dag er bannað að geyma duftker annars staðar en í líkhúsi.

„Í frumvarpinu er þetta gefið frjálst þannig að ekki verður gerð krafa um að kerið verði grafið eða dreift, það má líka varðveita öskuna. Við sjáum það auðvitað sums staðar erlendis að það er hefð fyrir að vera með ömmu uppi á arinhillu og samkvæmt frumvarpinu eins og það er í dag yrði það heimilt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×