Íslenski boltinn

Bauð Djemba-Djemba að þjálfa KFR og vinnu hjá SS

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Djemba-Djemba ku ekki vera á leið til KFR, né að vinna í Sláturfélaginu.
Djemba-Djemba ku ekki vera á leið til KFR, né að vinna í Sláturfélaginu. vísir/getty

Ungur stuðningsmaður KFR (Knattspyrnufélags Rangæinga), sem leikur í 4. deild, bauð Eric Djemba-Djemba, fyrrverandi leikmanni Manchester United, að þjálfa liðið. Sömuleiðis bauð hann Kamerúnanum vinnu í Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem KFR sendi Fótbolta.net.

Í hlaðvarpi Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football, var fullyrt að KFR ætti í viðræðum við Djemba-Djemba um að taka að sér þjálfun liðsins.

Tómas Birgir Magnússon, formaður KFR, þvertók fyrir þetta í samtali við Fótbolta.net í síðustu viku. Og KFR hefur núna sent frá sér yfirlýsingu um málið.

„Rétt skal vera rétt. Meistaraflokksráð KFR vann vinnu Dr. Football og komst að því að ungur stuðningsmaður KFR sendi í gríni skilaboð á Djemba-Djemba í gegnum Instagram og bauð honum gull og græna skóga ásamt vinnu í Sláturfélagi Suðurlands á Hvolsvelli. Þessi annars ágæti stuðningsmaður hefur engin tengsl né formlega stöðu hjá KFR og getur því ekki komið fram fyrir félagið eða verið talsmaður þess á nokkurn hátt. Einnig hefur hann ekki umboð til að ráða í störf hjá Sláturfélagi Suðurlands,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Manchester United keypti Djemba-Djemba frá Nantes sumarið 2003. Hann lék með United í eitt og hálft tímabili en gerði engar rósir hjá félaginu.

Síðan þá hefur Djemba-Djemba farið víða. Hann lék m.a. með OB í Danmörku þar sem hann var samherji Rúriks Gíslasonar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.