Erlent

Þriðji „hákarlinn“ segir af sér vegna Samherjamálsins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
WikiLeaks birti mikinn fjölda skjala um starfsemi Samherja þar sem hákarlarnir svokölluðu spila stórt hlutverk.
WikiLeaks birti mikinn fjölda skjala um starfsemi Samherja þar sem hákarlarnir svokölluðu spila stórt hlutverk. Vísir/Hafsteinn
James Hatuikulipi, einn af þeim sem nefndur hefur verið einn af hákörlunum í tengslum við umfjöllun um Samherjamálið, er hættur sem stjórnarformaður ríkisrekna sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor í Namibíu, að því er fram kemur á forsíðu namibíska dagblaðsins Namibian Sun á morgun.

Sun birtir forsíðuna á Twitter þar sem fram kemur að Hatuikulipi hafi sagt af sér stjórnarformennsku. Í síðustu viku var Leon Jooste, ráðherra ríkisfyrirtækja í Namibíu, sagðir hafa óskað eftir því að Hatuikulipi yrð leystur frá störfum ásamt forstjóra Fishcor, Mike Nghipunya.

Á forsíðunni er einnig haft eftir Bennet Kangumu, sem tekið hefur við stjórnarformennsku Fishcor tímabundið, að ekki sé fyrirhugað að segja forstjóranum upp störfum á næstunni.

Hatuikulipi er áberandi í Samherjaskjölunum svonefndu og er einn þremenninganna sem hafa verið nefndir „hákarlarnir.“ Fishcor er sjávarútvegsfyrirtæki í eigu namibíska ríkisins sem Íslendingar hjálpuðu til við að stofna árið 2014.

Er Hatuikulipi sagður hafa spilað veigamikinn þátt í því að útvega Samherja kvóta hagstæðu verði og benda gögnin sem fylgdu umfjöllun Kveiks og Stundarinnar og birt voru af Wikileaks sömuleiðis til þess að hann hafi fengið háar greiðslur frá Samherja.

Í kjölfar umfjöllunar um Samherjamálið sagði Hatuikulipi upp störfum sem stjórnandi hjá fjármálafyrirtækinu Investec Asset Management.

Hákarlarnir þrír, Hatuikulipi, Bernard Esau, fyrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, hafa því nú allir sagt upp störfum vegna Samherjamálsins.


Tengdar fréttir

Samherjamálið skref fyrir skref

Samherjaskjölin sem birt voru á vef WikiLeaks í gær, og voru til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi og í dagblaðinu Stundinni, hafa vakið mikla athygli – og gríðarleg viðbrögð í íslensku samfélagi.

Ráðgjafagreiðslur og aflandsfélög: Samherjamálið útskýrt

Eitt umsvifamesta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands, Samherji, er sakað um að hafa borið fé á namibíska embættismenn til að komast yfir kvóta þar í landi. Fyrrverandi starfsmaður Samherja í Afríku kom skjölum til Wikileaks og sagði frá aðferðum sínum og Samherja í Kveiki á Ríkisútvarpinu í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×