Erlent

Bloomberg færist nær forsetaframboði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Michael Bloomberg, auðkýfingur og fyrrverandi borgarstjóri New York.
Michael Bloomberg, auðkýfingur og fyrrverandi borgarstjóri New York. AP/John Locher
Milljarðamæringurinn Michael Bloomberg hefur skilað inn tilskyldum gögnum sem þarf til þess að bjóða sig fram í forkosningum demókrata fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Starfsmaður hans segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram eða ekki.

Bloomberg hefur að undanförnu gefið frá sér ýmis skilaboð að hann muni bjóða sig fram í forkosningunum þar sem nærri tuttugu frambjóðendur berjast um útnefningu demókrata.

Það að hann hafi skilað inn gögnum þýðir að hann má byrja að safna pening til stuðnings framboði hans en á vef Reuters er haft eftir starfsmanni Bloomberg að lokaákvörðun um framboð hafi ekki verið tekin.

Bloomberg var borgarstjóri New York á árunum 2002 til 2013. Talið er líklegt að muni hann bjóða sig fram muni hann sleppa því að taka þátt í nokkrum af fyrstu forkosningunum sem haldnar verða, en þar hafa mögulegur mótframbjóðendur hans eytt mánuðum í kosningabaráttu.

Þess í stað er talið líklegt að Bloomberg einbeiti sér að öðrum ríkjum og hefur hann þegar uppfyllt kröfur sem þarf til þess að skrá sig í forkosningarnar sem haldnar verða í Alabama, Arkansas, Texas, Georgíu og Michigan.

Ástæðan fyrir áhuga Bloomberg á forsetaframboði hefur sögð verið sú að hann telji núverandi frambjóðendur Demókrata ekki líklega til að geta lagt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í forsetakosningunum á næsta ári.

Fyrstu forkosningar demókrata fara fram í Iowa þann 3. febrúar á næsta ári.


Tengdar fréttir

Bloomberg stefnir á forsetaframboð

Auðkýfingurinn Michael Bloomberg ætlar mögulega að sækjast eftir tilnefningu Demókrataflokksins til embættis forseta Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×