Fótbolti

Komst ekki í liðið á Laugardalsvelli en spilar nú stjörnuhlutverk í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Caglar Soyuncu fagnar sigri með Leicester City.
Caglar Soyuncu fagnar sigri með Leicester City. Getty/Michael Regan
Caglar Soyuncu er ein af óvæntu stjörnum tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni en þessi öflugi tyrkneski miðvörður var fljótur að láta stuðningsmenn Leicester City gleyma Harry Maguire.

Þegar Leicester City seldi Harry Maguire til Manchester United fyrir 80 milljónir punda í haust þá höfðu eflaust margir áhyggjur af því að varnarleikurinn yrði nú hvorki fugl né fiskur.

Hver hefði svo sem getað séð það fyrir að fjórði kostur í miðverðinum á síðasta tímabili myndi leiða eina bestu vörn ensku úrvalsdeildarinnar á fyrsta tímabili.

Það þekktu ekki margir Tyrkjann Caglar Soyuncu en knattspyrnustjórinn Brendan Rodgers sá eitthvað í þessum 23 ára strák sem var fjórði í goggunarröð miðvarða Leicester City 2018-19 á eftir þeim Harry Maguire, Jonny Evans and Wes Morgan

Brendan Rodgers sá á eftir Harry Maguire til Manchester United en í stað þess að kaupa miðvörð í staðinn þá gaf hann Caglar Soyuncu tækifærið. Það var fljótt að borga sig.

Caglar Soyuncu í baráttu við Gylfa Sigurðsson í landsleik.Getty/Fatih Aktas
Caglar Soyuncu hafði setið allan tímann á varamannabekknum þegar Tyrkir mættu á Laugardalsvöllinn í júní og töpuðu 2-1. Nú var hann orðinn byrjunarliðsmaður í ensku úrvalsdeildinni og það sem meira er í spútnikliði tímabilsins.

Leicster City vann enn á ný um helgina og hélt líka marki sínu hreinu. Liðið situr nú í öðru sætinu við hlið Chelsea en bæði lið eru átta stigum á eftir toppliði Liverpool.

Caglar Soyuncu telst seint vera hávaxinn miðvörður en hann er með mikinn sprengikraft og góðar tímasetningar.

Ragnar Sigurðsson skoraði tvívegis eftir föst leikatriði í leiknum umrædda í Laugardalnum í júní en það verður mun erfiðara að leika eitthvað í líkindu við það eftir þegar Caglar Soyuncu er nú kominn í miðja tyrknesku vörnina.

Það athyglisverða er að Caglar Soyuncu hefur myndað frábært miðvarðarpar með hinum reynslumikla Jonny Evans. Hver hefði séð þetta miðvarðarpar fyrir sér passa svona vel saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×