Fótbolti

Ögmundur skilaði sér síðastur

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson. Getty/Jonas Gustafsson
Leikmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hafa verið að skila sér til Tyrklands síðustu daga þar sem íslenska landsliðið mætir heimamönnum á fimmtudagskvöldið í gríðarlega mikilvægum leik í undankeppni EM 2020.

Fyrstu leikmennirnir komu á laugardaginn en aðrir komu síðar þar sem lið þeirra voru að spila á laugardag, sunnudag eða mánudag.

Á æfingu liðsins í gær vantaði því marga leikmenn, einhverjir voru á leiðinni til Tyrklands, sumir voru nýkomnir á svæðið en aðrir voru í annars konar endurheimt upp á hóteli. Æfingin var því frekar létt og ekki taktísk. Íslensku blaðamennirnir á svæðinu fengu að fylgjast með.

Í gær komu nokkrir af leikmönnunum úr rússnesku deildinni en þeir voru ekki með á æfingunni. Ragnar Sigurðsson var kominn áður og var með á æfingunni þar til að hann hætti snemma.

Guðlaugur Victor Pálsson og Mikael Neville Anderson áttu að koma í gærkvöldi og þá vantaði bara einn leikmann í hópinn.

Síðastur til að skila sér til móts við íslenska hópinn var markvörðurinn Ögmundur Kristinsson. Ástæðan er að hann var að spila leik með Larisa í grísku deildinni á sama tíma og íslenska landsliðið var á æfingu.

Íslenska liðið æfir aftur í dag og hópurinn flýgur síðan allur saman til Istanbul eftir hádegi á morgun miðvikudag. Liðið fær síðan eina æfingu á keppnisvellinum á miðvikudagskvöldið.

Það er því ekki mikill tími eða margar æfingar sem íslensku landsliðsþjálfararnir fá til að undirbúa íslenska liðið fyrir þennan leik sem er hreinlega upp á líf eða dauða. Ekkert nema sigur dugar íslenska liðinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.