Fótbolti

Kári sagði Tyrkjunum að íslenska liðið ætlaði að koma í veg fyrir partýið

Óskar Ófeigur Jónsson í Istanbul skrifar
Kári Árnason.
Kári Árnason. Vísir/Sigurður Már

Kári Árnason talaði fyrir hönd leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu þegar hann hitti tyrknesku blaðamennina á Türk Telekom Arena í gær.

Tyrknesku blaðamennirnir spurðu Kára út möguleika íslenska liðsins í leiknum á morgun og hvernig íslenska liðið nálgaðist þennan mikilvæga leik þar sem Tyrkir geta tryggt sér sæti á EM 2020 en Ísland verður að vinna til að vera enn á lífi í keppninni.

„Tyrkir hafa gert mjög góða hluti í þessari undankeppni og það sem er þar mikilvægast er að þeir náðu í fjögur stig á móti Frakklandi sem hefur sett okkur í erfiða stöðu,“ sagði Kári Árnason.

„Þetta breytir ekki því að við komum hingað til að vinna leikinn. Vonandi verður ekki partý í Istanbul annað kvöld og við munum gera okkar besta til að koma í veg fyrir það,“ sagði Kári við blaðamenn í gær, og átti þá við leikinn sem er í kvöld.

„Ég vil samt ítreka það að Tyrkir hafa gert mjög vel og þeir þurfa aðeins eitt stig. Þeir fá tvö tækifæri til að komast á EM, á móti okkur og á móti Andorra. Við fáum einn möguleika sem er að vinna báða leiki,“ sagði Kári.

„Líkurnar eru á móti okkur en við höfum ekki gefist upp ennþá,“ sagði Kári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.