Erlent

Bólusetningar gegn mislingum orðnar skylda

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Heilbrigðisráðherrann bólusettur gegn inflúensu.
Heilbrigðisráðherrann bólusettur gegn inflúensu. Nordicpotos/Getty

Þýsk stjórnvöld hafa gert bólusetningar gegn mislingum að skyldu. Foreldrar sem ekki láta bólusetja börn sín verða sektaðir.

Löggjöf um mislingavarnir var samþykkt á ríkisþingi Þýskalands í gær með stuðningi beggja stjórnarflokkanna, Kristilegra demókrata og Sósíaldemókrata. Flokkarnir höfðu sammælst um að koma löggjöfinni í gegn síðasta vor. Frumvarpið var einnig stutt af frjálslynda miðjuflokknum Frjálsum demókrötum.

Eini flokkurinn sem kaus alfarið gegn frumvarpinu var hinn þjóðernispopúlíski Valkostur fyrir Þýskaland en minni flokkar á vinstri vængnum voru klofnir í málinu.

„Þetta er barnaverndarlöggjöf í sinni tærustu mynd,“ sagði heilbrigðisráðherrann Jens Spahn þegar hann talaði fyrir frumvarpinu í þinginu.

Löggjöfin tekur gildi í mars á næsta ári og þá þurfa foreldrar í Þýskalandi að sýna fram á að börn þeirra séu bólusett fyrir mislingum áður en þau hefja leikskólavist. Ef svo er ekki fá börnin ekki vistina og foreldrar í kjölfarið sektaðir um 2.500 evrur, eða um 350 þúsund krónur. Starfsfólki grunnskóla, daggæslu, heilsugæslustöðva og fleiri stofnana verður einnig gert skylt að hafa eftirlit með bólusetningunum.

Mislingatilfellum hefur fjölgað mikið í Evrópu á undanförnum árum í takti við fækkun bólusetninga. Á þessu ári hafa þegar komið upp 500 tilfelli í Þýskalandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.