Fótbolti

Moldóva ein af fáum þjóðum sem hafa komist yfir á móti heimsmeisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson í Chisinau skrifar
Vadim Rata fagnar marki sínu á móti Frökkum og Moldóvar voru yfir í 26 mínútur á Stada de France.
Vadim Rata fagnar marki sínu á móti Frökkum og Moldóvar voru yfir í 26 mínútur á Stada de France. Getty/Xavier Laine
Frakkar tryggðu sér heimsmeistaratitilinn með sigri á Króatíu í úrslitaleik HM í Rússlandi í júlí 2018. Síðan hafa aðeins fjórar þjóðir komist yfir á móti Frökkum í keppnisleikjum og ein af þeim er mótherji Íslands í kvöld.

Moldóvar mættur á Stade de France í síðasta leik og komust yfir með marki Vadim Rata á 9.mínútu. Rata var þar að skora sitt fyrsta landsliðsmark og það á heimavelli heimsmeistaranna.

Moldóvar voru yfir í 26 mínútur eða þar til að miðvörðurinn Raphaël Varane jafnið metin á 35. mínútu leiksins. Það var síðan Olivier Giroud sem skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 79. mínútu leiksins og Moldóvar fóru því tómhentir heim.

Frakkar hafa spilað þrettán keppnisleiki frá því að þeir tryggðu sér heimsmeistaratitilinn og aðeins lent undir í fjórum þeirra.

Tyrkir, sem tóku fjögur stig af þeim í riðlinum, hafa verið lengst fyrir á móti Frökkum en tyrkneska landsliðið leiddi í 60 mínútur í leik liðanna í Tyrklandi. Þjóðverjar og Hollendingar komust einnig yfir á móti Frökkum í Þjóðadeildinni.

Íslenska landsliðið var reyndar yfir í klukkutíma á móti Frökkum í vináttulandsleik þjóðanna 11. október 2018. Birkir Bjarnason og Kári Árnason komu íslenska liðinu í 2-0 en Frakkar náðu að tryggja sér jafntefli.

Það er einu vináttulandsleikurinn þar sem Frakkar hafa lent undir frá því að þeir lyftu heimsmeistarabikarnum í Moskvu í júlí 2018.

Þjóðir sem hafa verið yfir á móti heimsmeisturum Frakka í mótsleikjum frá HM 2018:

60 mínútur - Tyrkland (2 leikir)

48 mínútur - Þýskaland (2 leikir)

46 mínútur - Holland  (2 leikir)

26 mínútur - Moldóva (2 leikir)

0 mínútur - Ísland (2 leikir)

0 mínútur - Albanía (1 leikur)

0 mínútur - Andorra (2 leikir)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×