Erlent

Skutu lögreglumann með boga og kveiktu eld á brú

Eiður Þór Árnason skrifar
Aukin harka hefur færst í mótmælin í Hong Kong.
Aukin harka hefur færst í mótmælin í Hong Kong. Vísir/Getty
Lögreglumaður var skotinn með ör í fótinn í mótmælum í HongKong í dag. Mótmælendur söfnuðust saman við tækniháskóla í borginni og kveiktu elda í nágrenninu til að hindra aðgengi lögreglu.

Þá var múrsteinum og bensínsprengjum varpað í átt að lögreglu sem beitti táragasi og vatnsbyssum á mótmælendur. Í yfirlýsingu frá háskólanum voru mótmælendur beðnir um að yfirgefa svæðið sem er sagt illa farið eftir aðgerðirnar.

Mótmælendur er sagðir hafa skýlt sér á bak við regnhlífar á göngubrú hjá skólanum og síðan kveikt í hlutum sem lágu á brúnni. Úr varð mikil bál sem hamlaði aðgengi óeirðalögreglumanna að mótmælendunum. Einnig var kveikt í lögreglubifreið sem var á brúnni.

Reuters fréttastofan greinir frá því að lögreglan hafi hótað því að beita skotvopnum ef „óeirðaseggir“ myndu beita lögreglu ofbeldi eða notast við bannvæn vopn.

Margir óttast að komi til blóðugra átaka milli lögreglu og mótmælenda. Mótmælin voru nokkuð friðsamari annars staðar í borginni þar sem fólk hélst í hendur og söng þjóðlög.

Aukin harka hefur færst í mótmælin í HongKong sem beinast gegn stjórn sjálfstjórnarhéraðsins og kínverskum yfirvöldum. Upphaflega var stofnað til mótmælanna vegna framsalsfrumvarps sem myndi heimila framsal fólks frá HongKong til kínverskra yfirvalda á meginlandinu.

Stjórnvöld hafa síðan dregið frumvarp sitt til baka en mótmælin hafa haldið áfram, meðal annars með kröfum um lýðræðisumbætur og rannsókn á meintu lögregluofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×