Fótbolti

Sverrir Ingi: Hefðum getað skorað fleiri mörk

Arnar Geir Halldórsson og Óskar Ófeigur Jónsson skrifa
Sverrir Ingi lék allan leikinn í miðri vörn Íslands.
Sverrir Ingi lék allan leikinn í miðri vörn Íslands. vísir/getty
Sverrir Ingi Ingason stóð vaktina í hjarta varnarinnar hjá íslenska landsliðinu í kvöld þegar liðið vann 1-2 sigur á Moldóvu í undankeppni EM 2020.

„Það er gott að enda undankeppnina á sigri. Það er það sem við komum hingað til að gera; ná í þessi þrjú stig. Við hefðum getað skorað fleiri mörk og gert okkur aðeins auðveldara fyrir en markmiðið var að ná í þessi stig og við gerðum það,“ sagði Sverrir Ingi.

Íslensku strákarnir þurftu að hafa töluvert fyrir sigrinum í kvöld og Sverrir sagði það venjuna, sérstaklega þegar spilað er á útivelli.

„Moldóvarnir eru með fínt lið og þeir sýndu það líka í Frakklandi á dögunum. Þeir spiluðu góðan leik og eru á góðri leið með sitt lið. Við vitum það að þetta eru allt hörkuleikir í þessari undankeppni, sérstaklega á útivelli,“ sagði Sverrir sem fékk tækifærið í byrjunarliðinu en hann hefur verið í harðri samkeppni um sæti sitt þar.

„Það er alltaf gaman að fá að spila og nýta tækifærið í dag til að vinna. Við vitum að við þurfum að vera með marga leikmenn klára því eins og þessi undankeppni hefur verið hafa margir leikmenn verið að meiðast og við höfum sýnt að við erum með breiðari hóp heldur en þegar undankeppnin byrjaði og það er mjög gott,“ sagði Sverrir

Nú bíða Íslendingar í ofvæni eftir að sjá hverjir andstæðingarnir verða í umspilinu fyrir EM.

„Við erum fullir tilhlökkunar og staðráðnir í að klára þetta umspil til að komast inn á EM,“ sagði Sverrir að lokum.

Klippa: Viðtal við Sverri Inga
 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×