Erlent

Lagði spænska ríkið með sex börn á götunni

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Lögreglan í Madríd ber fólk út af heimilum sínum.
Lögreglan í Madríd ber fólk út af heimilum sínum. Nordicphotos/Getty
Sameinuðu þjóðirnar hafa skipað spænskum yfirvöldum að greiða einstæðri sex barna móður bætur fyrir ólögmæta brottvísun af heimili þeirra í höfuðborginni Madríd. Tugþúsundum Spánverja hefur verið vísað af heimilum sínum síðan í bankakreppunni sem hófst árið 2008.

Mariel Viviana Lopez Alban kærði spænska ríkið til nefndar Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi í júnímánuði árið 2018 fyrir að meina henni að leita réttar síns.

Alban hafði borgað óprúttnum aðila leigu í ár af umræddri íbúð, en sá hinn sami reyndist ekki vera eigandinn. Raunverulegur eigandi íbúðarinnar krafðist brottvísunar en nefnd Sameinuðu þjóðanna hafði óskað eftir frestun á því á meðan mál konunnar leystist.

Þegar Alban sótti um félagslega íbúð var henni neitað á grundvelli þess að hún hefði stundað hústöku. Í kjölfarið ruddust lögreglumenn í óeirðabúningi inn á heimili hennar og báru fjölskylduna út.

Síðan þá hefur fjölskyldan þvælst á milli neyðarskýla. Í kærunni sagði Alban að börnin hennar hefðu reglulega fengið kvíðaköst vegna ástandsins.

Nefndin, sem hefur engar beinar valdheimildir, úrskurðaði að neitun spænskra yfirvalda um félagslegt húsnæði stæðist ekki sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Auk þess að bæta Alban tjónið bæri þeim að uppfæra löggjöfina innan hálfs árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×