Innlent

Fyrstu svörtu kalkúnarnir á Íslandi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Stærsti svarti kalkúninn hjá Júlíusi er ansi stór og myndarlegur en það er karlfugl.
Stærsti svarti kalkúninn hjá Júlíusi er ansi stór og myndarlegur en það er karlfugl. Magnús Hlynur Hreiðarsson.
Fyrstu og einu svörtu kalkúnar landsins eru nú komnir í ræktun hjá hænsnabónda í Þykkvabæ. Um er að ræða þrjá fullorðna fugla og tólf unga.

Júlíus Már Baldursson í Þykkvabænum kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að ræktun hænsfugla en auk þess að vera um tvö hundruð landnámshænur þá er hann kominn með nokkra svarta kalkúna í hænsnahúsið sitt.

„Mér áskotnuðust egg í fyrra, sem ég gerði að gamni mínu og setti í útungunarvél og fékk út úr því kalkúna, sem eru upphaflega komnir frá Færeyjum, svartir kalkúnar, svokallaðir koparkalkúnar því það kastar kopar á þá í dagsbirtu og sól. Það er bara gaman að þessu,“ segir Júlíus Már.

Hann segir að það hafi alltaf verið til hvítir kalkúnar á Íslandi, stundum brúnir en aldrei svartir.

„Þetta eru fallegir fuglar finnst mér og sérstök hljóðin í þeim og þeir eru sérstakir í útliti líka, þetta er nýmæli, svona fuglar hafi ekki verið til á Íslandi áður.“

 

Júlíus Már Baldursson, hænsnabóndi og kalkúnaeigandi í Þykkvabænum.Magnús Hlynur Hreiðarsson.
En hvað ætlar Júlíus að gera við kalkúnana, verða þeir kannski borðaðir um jólin?

„Já, hann sagði mér þessi fyrrverandi eigandi í Færeyjum að hann hefði lógað tveimur fyrir jólin í fyrra hjá sér, sem voru einmitt jafn gamlir mínum fuglum og þeir hefðu verið átta og hálft og níu kíló, þannig að það er eitthvað á beinunum. Jólasteikin er klár, allavega hér úti hér hjá mér,“ segir Júlíus Már um leið og hann skellir upp úr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×