Erlent

Airbnb bannar „samkvæmishús“ eftir fjöldamorð í hrekkjavökuveislu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í borginni Orinda í Kaliforníu.
Frá vettvangi í borginni Orinda í Kaliforníu. Vísir/EPA

Heimagistingaþjónustan Airbnb hefur skorið upp herör gegn svokölluðum „samkvæmishúsum“ eftir að fimm manns voru skotnir til bana í hrekkjavökuveislu í íbúðarhúsi í Kaliforníu í Bandaríkjunum, sem leigt hafði verið í gegnum vefsíðu Airbnb.

Brian Chesky forstjóri Airbnb greindi frá fyrirætlunum fyrirtækisins á Twitter-reikningi sínum í kvöld og boðaði aðgerðir. Þannig myndi Airbnb berjast gegn samkvæmum sem haldin eru í leiguhúsnæði á vegum Airbnb í óleyfi og einnig yrði óæskileg hegðun bæði gestgjafa og gesta í þessu samhengi vöktuð.

Þessar breytingar á m.a. að knýja fram með því að koma á fót sérstöku „samkvæmishúsateymi“, sem á að reyna að framfylgja hinu nýja banni. Þá sagði Chesky að staðan sem nú er komin upp væri óásættanleg og fyrirtækið yrði að gera betur.Skotárásin var gerð síðasta þriðjudag í íbúðarhúsi í borginni Orinda sem staðsett er í nágrenni San Fransisco. Húsið var leigt sérstaklega út fyrir mannfögnuðinn, undir því yfirskyni að þar myndi aðeins koma saman fámennur hópur. Gleðskapurinn var þó auglýstur á Instagram og hann sóttu að endingu yfir hundrað manns. Eigandi íbúðarinnar, sem auglýsti hana til leigu á Airbnb, gaf ekki leyfi fyrir samkvæminu.

Þrír voru úrskurðaðir látnir á vettvangi á þriðjudagskvöld og tveir til viðbótar létust síðar af sárum sínum, sá fimmti í gærkvöldi. Allir sem létust voru á þrítugsaldri. Enginn hefur enn verið handtekinn í tengslum við árásina. Tvö skotvopn fundust á vettvangi.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníuríkis, sagði í ávarpi vegna árásarinnar að Bandaríkjaþing yrði að herða byssulöggjöfina. Þá vottaði hann aðstandendum fórnarlambanna dýpstu samúð sína.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.