Fótbolti

Endurkoma hjá Ögmundi og félögum | Kærkominn sigur hjá Jóni Degi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ögmundur og félagar létu martraðarbyrjun ekki á sig fá.
Ögmundur og félagar létu martraðarbyrjun ekki á sig fá. vísir/getty
Ögmundur Kristinsson og félagar í AEL Larissa lentu 0-2 undir gegn OFI Crete í grísku úrvalsdeildinni í dag en komu til baka og unnu 3-2 sigur.

Ögmundur var á sínum stað í marki Larissa sem byrjaði leikinn skelfilega og eftir sjö mínútur var staðan 0-2, Crete í vil.

Larissa minnkaði muninn í 1-2 á 14. mínútu og skoraði svo tvö mörk í seinni hálfleik sem tryggðu sigurinn.

Larissa er í 5. sæti deildarinnar með 15 stig. Liðið er ósigrað í sex leikjum í röð.

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF sem lagði Nordsjælland að velli, 0-1, á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni.

Jón Dagur var tekinn af velli á 78. mínútu. Þremur mínútum síðar skoraði Patrick Mortensen eina mark leiksins úr vítaspyrnu.

Sigurinn var kærkominn því AGF hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir leikinn í dag. Jón Dagur og félagar eru í 5. sæti deildarinnar með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×