Erlent

Grunuðum morðingjum tókst að flýja úr fangelsi í Kali­forníu

Atli Ísleifsson skrifar
Jonathan Salazar og Santos Samuel Fonseca.
Jonathan Salazar og Santos Samuel Fonseca. Lögregla í Monterey
Lögregla í Kaliforníu hefur birt myndir af tveimur grunuðum morðingjum sem tókst að flýja úr fangelsi í ríkinu á dögunum.

Þeir Santos Samuel Fonseca, 21 ára, og hinn tvítugi Jonathan Salazar skriðu í gegnum gat, 55 sentimetrar í þvermál, sem þeir höfðu gert í lofti baðherbergis í fangelsinu í Salinas, suður af San Francisco.

Fangarnir skriðu í gegnum gat í lofti baðherbergis.Lögregla í Monterey
Lögreglustjóri segir að mönnunum hafi tekist að nýta sér „glufu“ og fundið stað þar sem eftirliti var ábótavant. Þeir hafa verið ákærðir í tveimur aðskildum morðmálum bíða réttarhalda.

Þeir Fonseca og Salazar flúðu úr fangelsinu á sunnudaginn og lýsa talsmenn yfirvalda mönnunum sem vopnuðum og hættulegum. Lögregla hefur boðið fimm þúsund dali, um 600 þúsund krónur, fyrir upplysingar sem leiða til að mennirnir verði handsamaðir.

Mennirnir virðast hafa skriðið í gegnum gatið og í gegnum lagnarými milli veggja þar til að þeir komu að hlera sem þeir fóru út um. Hlerinn var á bakhlið fangelsisins þar sem ekki er að finna neinar öryggisgirðingar.

Fonseca er sakaður um að hafa myrt þá Lorenzo Gomez Acosta, 37 ára, og Ernesto Garcia Cruz, 27 ára, með fjögurra daga millibili í júní 2018. Salazar er hins vegar ákærður fyrir að hafa skotið hinn tvítuga Jaime Martinez til bana í október 2017. Þeir hafa báðir neitað sök.

Lagnarýmið sem þeir skriðu í gegnum.Lögregla í Monterey



Fleiri fréttir

Sjá meira


×