Fótbolti

Færa úrslitaleikinn frá Síle til Perú

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
River Plate frá Argentínu og Flamengo frá Brasilíu spila til úrslita í ár.
River Plate frá Argentínu og Flamengo frá Brasilíu spila til úrslita í ár. Mynd/Twitter/@Libertadores
Mótmælin í Síle hafa ekki aðeins áhrif á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og ferðir sænska aðgerðasinnans Gretu Thunberg heldur einnig á stærstu fótboltakeppni Suður-Ameríku.

Úrslitaleikurinn í Suðurameríkukeppni félagsliða, CopaLibertadores, átti að fara fram í Santiago í Síle en ekkert verður af því.

Úrslitaleikurinn hefur nú verið færður frá Síle til nágrannaríkisins Perú. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP25, hafði áður verið flutt frá Síle til Spánar. 





Mótmælin í Síle hófust 20.október síðastliðinn og hafa síðan þróast út í margra vikna mótmæli gegn miklum ójöfnuði í landinu. Tuttugu hafa dáið í mótmælunum og yfir sjö þúsund manns hafa verið handtekin.

Leikurinn sem er á milli, RiverPlate frá Argentínu og Flamengo frá Brasilíu, fer nú fram í Lima, höfuðborg Perú 23. nóvember næstkomandi.

Knattspyrnusamband Suður-Ameríku fundaði sérstaklega vegna málsins og tók þessa ákvörðun eftir að hafa fengið tilboð frá stjórnvöldum í Perú.

Vináttulandsleikur Bólivíu og Síle, sem átti að fara fram 15. nóvember, hefur einnig verið frestað.

Þetta er annað árið í röð sem þarf að flytja úrslitaleik CopaLibertadores en í fyrra kom það til eftir óeirðir í BuenosAires þar sem ráðist var á liðsrútu BocaJuniors á leið hennar í seinni leikinn.

BuenosAires liðin RiverPlate og BocaJuniors mættust í úrslitaleiknum í fyrra en seinni úrslitaleikurinn var á endanum færður til Spánar. Í ár fer bara fram einn úrslitaleikur í keppninni í stað tveggja áður.  Leikurinn fer líka fram á hlutlausum velli en ekki á heimavöllum beggja liða eins og áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×