Innlent

Segir forsendu meirihlutasamstarfsins í höfuðborginni brostna

Jón Þórisson skrifar
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Í fimm ára áætlun sem fylgdi frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og lögð var fram á fundi borgarstjórnar nýlega, er ráðgert að skuldir og skuldbindingar samstæðu Reykjavíkurborgar verði 64 milljörðum hærri árið 2022 en þær voru við síðustu kosningar. Þetta segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Það sem slær mann er hve þetta er stjarnfræðilega langt frá áætluninni sem var lögð fram fyrir síðustu kosningar. Þegar maður horfir á lokaár kjörtímabilsins, sem er 2022, stefnir í að borgin skuldi 368 milljarða í stað 304 milljarða samkvæmt áætluninni,“ segir Eyþór.

„Þetta er svo gríðarlega há tala að ég held að þeim hafi brugðið þegar ég benti á þetta,“ segir Eyþór jafnframt. Hann segir sáttmálann sem liggur til grundvallar meirihlutasamstarfinu mæla fyrir um að greiða eigi niður skuldir. Stefna Viðreisnar hafi verið sjálfbær rekstur og að greiða niður skuldir. „Þetta er eins langt frá því sem verða má.“

Hann segir þetta setja samstarf í meirihlutanum í nýtt ljós.

„Ég get ekki séð að Viðreisn sé stætt á að vera í meirihlutasamstarfi sem gengur svo þvert á stefnu flokksins og sömuleiðis þvert gegn lykilatriðum í fjármálakafla meirihlutasáttmálans sem Viðreisn samþykkti. Það voru ekki bara borgarfulltrúarnir heldur líka flokkurinn sjálfur sem samþykkti sáttmálann og fjármálakaflann þar með.“

Fyrri umræða um frumvarpið og áætlunina fór fram á þriðjudag í borgarstjórn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×