Innlent

Skora á fjölmiðlafyrirtæki að hagræða ekki í launum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hjálmar Jónsson formaður blaðamannafélags Íslands, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri Stundarinnar og Jón Trausti Reynisson ritstjóri og framkvæmdastjóri Stundarinnar skrifuðu undir kjarasamning síðdegis.
Hjálmar Jónsson formaður blaðamannafélags Íslands, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri Stundarinnar og Jón Trausti Reynisson ritstjóri og framkvæmdastjóri Stundarinnar skrifuðu undir kjarasamning síðdegis. Blaðamannafélag Íslands
Blaðamannafélag Íslands og Útgáfufélag Stundarinnar skrifuðu síðdegis í dag undir kjarasamning. Hann er í öllum aðalatriðum eins og samningurinn sem gerður var við Birting og Kjarnann.

Frá þessu er greint á vef Blaðamannafélagsins þar sem haft er eftir Jóni Trausta Reynissyni, framkvæmdastjóra Stundarinnar, að þau Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar, skori á önnur fjölmiðlafyrirtæki að freista þess að hagræða með öðrum hætti en launum starfandi blaðmanna.

Sem dæmi hafi Stundin takmarkað útgáfutíðni og reynt að halda yfirbyggingu og stjórnunarkostnaði í lágmarki.

„Þó svo að fjölmiðlafyrirtæki eigi erfitt með að borga há laun er ýmislegt hægt að gera til þess að hindra atgervisflótta úr blaðamennsku. Það skiptir miklu máli fyrir allt samfélagið, því besta leiðin til að tryggja gagnsæi og gott upplýsingaflæði til almennings er að viðhalda sterkum kjarna af íslenskum fagblaðamönnum sem geta lifað fjárhagslega sjálfbæru lífi,“ segir Jón Trausti.

Hann skoraði að lokum á stjórnvöld að tryggja að starfsaðstæður íslenskra fjölmiðla og blaðamanna nálgist aðrar norrænar þjóðir réttarfarslega og fjárhagslega.

Hvorki hefur gengið né rekið í viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna Morgunblaðsins, Fréttablaðsins, Sýnar og RÚV og er svo komið að ráðist verður í fjögurra klukkustunda vinnustöðvun á vefmiðlunum á morgun sem hefst klukkan tíu.

Blaðamenn Vísis eru flestir félagar í Blaðamannafélagi Íslands, þar á meðal sú sem þetta skrifar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.