Fótbolti

Yfirmaður MLS-deildarinnar heldur að Zlatan sé að fara í AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimović skoraði ófá mörkin fyrir Los Angeles Galaxy.
Zlatan Ibrahimović skoraði ófá mörkin fyrir Los Angeles Galaxy. Getty/Shaun Clark
Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimović er sagður vera á leiðinni aftur til ítalska liðsins AC Milan þar sem hann spilaði síðast fyrir sjö árum.

Don Garber, yfirmaður MLS-deildarinnar, missti það út úr sér í viðtali við ESPN á Youtube að Zlatan Ibrahimovic sé að fara til AC Milan.

Orðrómur hefur verið um að Zlatan Ibrahimovic sé að fara til Ítalíu og þar var AC Milan alltaf nefnt sem mögulegan stað fyrir þennan 38 ára gamla framherja. Orð yfirmanns bandarísku deildarinnar fara langt með fullvissa menn um að Zlatan klári leiktíðina með AC Milan.





Samningur Zlatan Ibrahimović við LA Galaxy rennur út um áramótin og Svíinn gæti því farið til AC Milan á frjálsri sölu.

„Zlatan er svo áhugaverður gæi. Hann sér til þess að ég hef nóg að gera en þú þarf á svona leikmönnum ða halda. Þetta er eins og með Beckham á sínum tíma. Hann er 38 ára gamall og núna er lið eins og AC Milan á eftir honum, eitt stærsta félagið í heimi,“ sagði Don Garber.

Zlatan Ibrahimović lék með AC Milan frá 2011 til 2012. Hann skoraði 42 mörk í 61 deildarleik með félaginu og varð ítalskur meistari vorið 2011. Zlatan hafði áður orðið þrisvar ítalskur meistari með nágrönnunum í Internazionale Milan þar sem hann spilaði frá 2006 til 2008.

Ibrahimović sýndi hversu hann er megnugur í bandarísku deildinni en á tveimur tímabilum með Los Angeles Galaxy var hann með 52 mörk í 56 deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×