Innlent

Kveikt á skjá númer hundrað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra og Steingrímur Birgisson frá Bílaleigu Akureyrar við skjáinn góða.
Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra og Steingrímur Birgisson frá Bílaleigu Akureyrar við skjáinn góða. Mynd/Landsbjörg
Kveikt var á hundraðasta upplýsingaskjá Safetravel-verkefnisins við hátíðlega athöfn á Akureyri í gær. Formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar telur að verkefnið hafi skilað sér í færri óhöppum.

Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, kveikti á skjá númer hundrað, sem staðsettur er í starfstöð Bílaleigu Akureyrar á Akureyri. Við það tækifæri lýsti hún yfir mikilli ánægju með Safetravel-verkefnið og sagði hún að sem ráðherra héldi hún sérstaklega upp á verkefnið, þar sem það væri skólabókardæmi um farsæla samvinnu yfirvalda, félagasamtaka og fyrirtækja.

Upplýsingaskjáirnir eru staðsettir víða og þjóna þeim tilgangi að koma mikilvægum upplýsingum og fróðleik til ferðamanna, innlendra sem erlendra, og auka þannig öryggi þeirra. Á skjánum má finna vefmyndavélar á vegum á tilteknum svæðum, veðurspá frá svæðinu, aðvaranir sem ferðamenn þurfa að sjá og ýmislegt fleira.

Skjáirnir eru staðsettir á helstu viðkomustöðum ferðamanna, flugvöllum, bílaleigum, bensínstöðvum, hótelum og öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Fyrsti skjárinn var settur upp fyrir fimm árum og hefur þem fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum.

„Þetta er aukinn fræðsla sem skilar sér í færri óhöppum, alveg klárlega. Við heyrum það frá samstarfsaðilum okkar að þetta er gríðarlega mikið notað. Þetta er góð leið tl að koma upplýsingum áfram til fólks,“ sagði Þór Þorsteinsson, formaður Landsbjargar í samtali við Vísi í gær þegar skjárinn var vígður í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×