Fótbolti

Fyrsta danska þrennan í ítölsku úrvalsdeildinni í 55 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cornelius hafði ærna ástæðu til að fagna í gær.
Cornelius hafði ærna ástæðu til að fagna í gær. vísir/getty

Danski landsliðsmaðurinn Andreas Cornelius skoraði þrennu þegar Parma vann 5-1 sigur á Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Cornelius kom inn á sem varamaður á 12. mínútu. Þremur mínútum fyrir hálfleik kom hann Parma í 2-0. Hann skoraði aftur í uppbótartíma fyrri hálfleiks og á 50. mínútu gerði hann svo sitt þriðja mark.

Þetta var ekki bara fyrsta þrenna Cornelius í ítölsku úrvalsdeildinni heldur fyrsta þrenna dansks leikmanns í deildinni í 55 ár.

Síðasti Daninn sem skoraði þrjú mörk í einum og sama leiknum í efstu deild á Ítalíu var Harald Nielsen. Hann skoraði þrennu í 4-0 sigri Bologna á Roma 19. janúar 1964.


Nielsen skoraði alls 21 mark þegar Bologna varð ítalskur meistari tímabilið 1963-64. Hann lék einnig með Inter, Napoli og Sampdoria á Ítalíu. Nielsen lést fyrir fjórum árum síðan.

Cornelius hefur skorað fjögur mörk fyrir Parma í sjö leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur.

Sigurinn í gær var sá stærsti hjá Parma í ítölsku úrvalsdeildinni í 18 ár, eða síðan liðið vann Perugia, 5-0, í febrúar 2001.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.