Erlent

Rússneskir hermenn komnir á vígstöðvarnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Rússneskir hermenn eru nú komnir til Norðaustur-Sýrlands eftir að Tyrkir og Rússar komust að samkomulagi í gær. Bandaríkin hafa tilkynnt um afléttingu viðskiptaþvingana sinna á Tyrki og sagði Bandaríkjaforseti að Tyrklandsstjórn hefði tjáð sér að vopnahlé á svæðinu væri orðið varanlegt.

Í bæði Kobani og Manbij í Sýrlandi má nú finna hópa rússneskra hermanna og hafa leiðtogar þeirra átt fundi með yfirmönnum úr sýrlenska stjórnarhernum í dag.

Þetta er vegna samkomulag sem forsetar Tyrklands og Rússlands gerðu í rússnesku borginni Sotsjí í gær um að hersveitir Kúrda, sem innrás Tyrkja beinist gegn, fengju 150 klukkustundir til þess að hörfa þrjátíu kílómetra frá landamærum Sýrlands og Tyrklands.

Kílómetrana þrjátíu segjast Tyrkir ætla að nýta til þess að hýsa sýrlenska flóttamenn.

Hersveitir Kúrda hafa ekki svarað kröfum Tyrkja og Rússa. Upplýsingafulltrúi Rússlandsstjórnar sagði að hörfi Kúrdar ekki myndi herlið bæði Rússa og Sýrlandsstjórnar hörfa og ekki standa í vegi fyrir frekari árásum Tyrkja. Kúrdar mótmæltu samkomulaginu í Qamishli í dag.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir of snemmt að leggja mat á samkomulagið.

„Ég held að atburðir undanfarinna daga hafi verið jákvæðir því þeir sýna að mögulegt er að nálgast málið á pólitískum vettvangi og finna pólitíska lausn. Fyrsta skilyrðið fyrir því er að stöðva ofbeldið, að stöðva átökin, og við höfum séð það minnka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×