Innlent

„Lögreglunni leist ekki á grjótflugið“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Á korti Vegagerðarinnar má sjá lokun vegarins. Afar hvasst er á Suðausturlandi þessa stundina.
Á korti Vegagerðarinnar má sjá lokun vegarins. Afar hvasst er á Suðausturlandi þessa stundina. Skjáskot/vegagerðin
Vegagerðin hefur gripið til þess ráðs að loka hringveginum á milli Núpsstaðar og Hafnar í Hornafirði vegna mikils hvassviðris og hættu á sandfoki. Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi til hádegis á morgun. Þá hafa björgunarsveitir staðið í ströngu vegna veðurs víða um land síðan í gærkvöldi.

„Lögreglunni leist ekki á grjótflugið,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um lokunina í kvöldfréttum Stöðvar 2. Bálhvasst veður var og er í Suðursveit í dag. Vindurinn hreif með sér bæði sand og steina sem fuku í bíla og brutu rúður.

Einar sagði að áfram liti út fyrir hvassviðri á Suðausturlandi í kvöld. Appelsínugul viðvörun er í gildi í landshlutanum til hádegis á morgun, þar sem hviður gætu jafnvel farið yfir 50 metra á sekúndu.

Ekki er mikil von á að snjói meira í höfuðborginni, að sögn Einars, en borgarbúar vöknuðu við dálitla fönn í morgun. „Það er nú óvenjulegt að snjói í norðanáttinni,“ sagði Einar og benti á að ansi hvasst væri nú á Kjalarnesi, hviður yfir 40 metrum á sekúndum, og yrði áfram.

Þá muni ganga á með éljum fyrir norðan í kvöld, þar verði víða skafrenningur og blint, sem gæti gert ökumönnum erfitt fyrir.

Viðtal við Einar í kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að neðan.

Útköllin nánast stöðug síðan í gærkvöldi

Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir í samtali við Vísi að björgunarsveitum hafi borist veðurtengd útköll víða um land.

„Útköllin hafa verið nánast stöðug síðan í gærkvöldi,“ segir Davíð. Aðallega hefur verið tilkynnt um foktjón, þar sem þakklæðningar, þakplötur og lausamunir hafa verið að fjúka. Þá hafi einnig verið mikið um bíla í vandræðum vegna ófærðar. Í tveimur tilfellum hafi ökumenn hreinlega misst bíla sína út af veginum vegna blindhríðar.

Davíð áréttar að mikilvægt sé að fólk hugi að færð á vegum, veðurspá og útbúnaði bíla sinna áður en lagt er í ferðalög.

„Veturinn kom og skall svolítið á eins og gerist oft, það kemur fólki stundum á óvart.“

Upp úr klukkan fimm fóru svo að berast beiðnir á suðvesturhorninu, einkum í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi, þar sem munir eru byrjaðir að fjúka. Davíð segir að björgunarsveitir verði í viðbragðsstöðu fram eftir kvöldi.

Hægt er að fylgjast með færð á vegum og veðurspá á vefjum Vegagerðarinnar og Veðurstofu Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×