Fótbolti

Heimsmeistarakeppni félagsliða tekur stakkaskiptum | Stórliðin neita að taka þátt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Liverpool taka þátt á HM félagsliða í desember.
Liverpool taka þátt á HM félagsliða í desember. Vísir/Getty
Það á svo sannarlega að umturna Heimsmeistarakeppni félagsliða árið 2021 og ekki eru allir á eitt sáttir. Ensku stórliðin hafa sagt að þau muni sniðganga keppnina.

BBC greindi frá þessu.

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, telur að nýja fyrirkomulagið muni gera keppnina trúverðugri og talar um hana sem hina einu sönnu heimsmeistarakeppni félagsliða. Kína mun halda fyrstu keppnina með nýja fyrirkomulaginu sumarið 2021.

Aðalbreytingin er sú að í stað sjö liða verða nú 24 lið sem taka þátt. Þá mun keppnin fara fram í júní til júlí en ekki í desember líkt og þekkist nú. Infantino vill meina að keppnin muni nú verða eitthvað sem unnendur knattspyrnu mun hlakka til að sjá.

Katar mun halda mótið í ár sem og á næsta ári en FIFA hefur verið gagnrýnt fyrir að halda mótin í löndum þar mannréttindi virðast ekki eiga upp á pallborðið. Að fara frá Katar yfir til Kína verður seint talið skref upp á við.

Í mars hittist samband evrópskra félagsliða (ECA) og lýsti í kjölfarið yfir áhyggjum varðandi nýtt fyrirkomulag. Leikmenn stærstu liða í Evrópu eru nú þegar með nóg á sinni könnu og að bæta við stórmóti hjá félagsliðum þýðir að leikmenn stærstu liðanna í Evrópu fá mögulega sumarfrí á fjögurra ára fresti.

Þá skarast keppnin á við Álfukeppni FIFA sem er alltaf haldin ári áður en heimsmeistarakeppni landsliða fer fram.

Það verður forvitnilegt að sjá hvað FIFA og Infantino gera en meðlimir ECA standa fastir á sínu, stærstu félög Evrópu munu ekki taka þátt í keppninni verði af breytingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×