Innlent

Gunnar Karlsson er látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gunnar Karlsson.
Gunnar Karlsson. Mynd/Aðsend

Dr. Gunnar Karlsson, sagnfræðingur og prófessor emeritus, lést á hjartadeild Landspítalans mánudaginn 28. október. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum hans.

Gunnar fæddist í Efstadal í Laugardal, 26. september 1939, sonur hjónanna Karls Jónssonar og Sigþrúðar Guðnadóttur, bænda í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum. Þar ólst Gunnar upp í níu systkina hópi.

Gunnar lauk kandídatsprófi frá Háskóla Íslands 1970 og doktorsprófi frá sama skóla 1978. Hann kenndi við University College í London 1974–1976, varð lektor í sagnfræði við HÍ 1976 og prófessor 1980.

Gunnar skrifaði fjölmargar kennslubækur í sögu fyrir öll skólastig, frá grunnskóla og upp í háskóla, hann skrifaði hluta af stórum ritum eftir marga höfunda, til dæmis Sögu Íslands og ritstýrði við þriðja mann útgáfu á Grágás.

Meðal fræðirita hans má nefna doktorsritgerð hans, Frelsisbaráttu Suður-Þingeyinga og Jón á Gautlöndum, Íslandssöguna Iceland’s 1100 Years: History of a Marginal Society, Ástarsögu Íslendinga að fornu og ritið Goðamenning: staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga, grundvallarrit um eitt merkilegasta tímabil í íslenskri sögu.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur. Dætur Gunnars eru Sif, Sigþrúður og Elísabet. Barnabörnin eru sjö.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.