Erlent

Ekki í fyrsta skipti sem Hariri segir af sér

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hariri afhendir Michel Aoun afsagnarbréf sitt.
Hariri afhendir Michel Aoun afsagnarbréf sitt. AP/Dalati Nohra
Forsætisráðherra Líbanons tilkynnti um afsögn sína í dag. Mótmæli hafa tröllriðið landinu undanfarnar tvær vikur. Skuldastaða fárra ríkja heimsins er jafnslæm og Líbanons. Ríkisstjórn Saads Hariri hefur því unnið eftir niðurskurðarstefnu við litla hrifningu landsmanna.

Vegna þessa hafa Líbanar safnast saman frá því um miðjan mánuð og mótmælt stefnu ríkisstjórnarinnar, bágu efnahagsástandi, atvinnuleysi og spillingu í stjórnmálum. Kröfugöngur, verkföll, borgaraleg óhlýðni, vegatálmanir og fleiri aðgerðir hafa sett svip sinn á daglegt líf í landinu að undanförnu.

Hariri forsætisráðherra tilkynnti því í dag um að hann myndi afhenda forseta ríkisins afsagnarbréf sitt. „Ég hef reynt að finna lausnir og hlustað á þjóðina til þess að skýla landsmönnum frá efnahagsörðugleikum. Svo ég sé alveg hreinskilinn þá vil ég segja að ég er kominn í blindgötu,“ sagði hann.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem Hariri segir af sér. Þegar hann var staddur í Sádi-Arabíu, þar sem hann fæddist, fyrir tveimur árum gaf hann það óvænt út að hann myndi stíga til hliðar.

Málið vakti heimsathygli og voru líbanskir valdamenn vissir um að sádiarabísk yfirvöld hefðu þvingað Hariri til afsagnar vegna þess að þeim þótti hann ekki standa sig nógu vel í baráttunni gegn Íran og Hezbollah.

Svo fór loks að Hariri dró afsagnarbréf sitt til baka um mánuði eftir heimkomu til Líbanons.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×