Fótbolti

Einn Íslendingur á lista yfir efnilegustu knattspyrnumenn heims

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Andri Lucas í leik með U17 ára landsliði Íslands
Andri Lucas í leik með U17 ára landsliði Íslands vísir/getty

Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen er á mála hjá spænska stórveldinu Real Madrid og þykir vera á meðal 60 bestu leikmanna heims í sínum aldursflokki en Andri Lucas er fæddur árið 2002.

The Guardian tekur árlega saman lista yfir efnilegustu knattspyrnumenn heims og á listanum í ár eru alls 60 leikmenn. Andri Lucas er eini Íslendingurinn á lista.

Á meðal leikmanna á listanum ber helsta að nefna Ansu Fati (Barcelona) og Eduardo Camavinga (Rennes) sem hafa látið að sér kveða með aðalliðum sinna félaga á yfirstandandi leiktíð.

Í samantektinni segir að Andri Lucas sé fæddur markaskorari; virkilega líkamlega sterkur og góður í loftinu auk þess að vera fljótur, teknískur og jafnvígur á hægri og vinstri fæti.

Börsungar sitja eftir með sárt ennið

Í samantektinni er einnig vakin athygli á því að stuðningsmenn Barcelona hafi rekið upp stór augu þegar Andri Lucas gekk í raðir Real Madrid í ljósi þess að Eiður Smári Guðjohnsen, faðir Andra, er í miklum metum hjá Katalóníustórveldinu eftir dvöl sína þar frá 2006-2009.

Andri Lucas gekk í raðir Real frá Barcelona síðasta sumar en hann lék einnig með Espanyol á sínum yngri árum auk þess að spila með HK á yngri flokka mótum hér á landi.

Andri hefur leikið 28 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað í þeim 12 mörk.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.