Innlent

Vilja fá sæti við borðið í Norðurskautsráðinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bæjar- og borgarstjórar ellefu borga og bæja á Norðurslóðum skrifuðu í dag á Akureyri undir stofnskjal Arctic Mayor Forum, samráðsvettvang borgar- og bæjarstjórna á Norðurslóðum. Bæjarstjórinn á Akureyri segir að markmiðið sé einna helst að komast að borðinu í Norðurskautsráðinu.

Samráðsvettvangurinn hefur verið starfræktur í nokkur ár en í dag var samstarfið formlega neglt niður. Í stofnskjalinu kemur meðal annars fram að markmiðið sé að að tryggja það að sveitarstjórnir á Norðurslóðum komi að ákvarðanartöku vegna málefna Norðurslóða á öllum stigum, þar með talið í Norðurskautsráðinu.

„Eitt af markmiðum okkar er að verða áheyrnarfulltrúar í Norðurskautsráðinu og til þess að eiga möguleika á því þá þurfum við að vera búin að formgera þennan félagsskap,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar.

Ástæðan fyrir því er einföld.

„Við teljum mjög mikilvægt að þeir sem eru að fást við líf fólks á Norðurslóðum dags daglega, eins og sveitarfélögingera, að þeir eigi fulltrúa inn í Norðurskautsráðinu. Eitt af markmiðum Íslands í þeirra formennskutíð er fólk á Norðurslóðum og við teljum mjög mikilvægt að okkar raddir heyrist þarna inni,“ segir Ásthildur sem var á fundinum kjörinn fyrsti formaður Arctic Mayors.

Ethan Burkowitz er borgarstjóri Anchorage í Alaska, þar sem búa tæplega 300 þúsund manns.Vísir/Tryggvi Páll.

Eiga margt sameiginlegt þrátt fyrir ólíkar stærðir og gerðir

Ethan Burkowitz, borgarstjórí Anchorage í Alaska var á meðal þeirra sem skrifuðu undir stofnskjalið í dag. Hann segir Akureyri og Anchorage eiga margt sameiginlegt, þrátt fyrir að í Anchorage búi nærri því jafn margir og á öllu Íslandi.

„Orkumál, förgun úrgangs og allt sem tengist því að stýra borg á Norðurslóðum,“ segir Burkowitz.

Þá er Arctic Mayors Forum einnig vettvangur þar sem bæjar- og borgarstjórar geti deilt þekkingu sín á milli.   

„Ég held að við getum kennt vinum okkar í noðrinu um umhverfismál um orkunotkun, orkunýtingu og orkuframleiðslu. Ég tel að við getum kennt þeim ýmislegt varðandi skólamál og félagsþjónustu og þjónustu við fatlaða og ýmislegt fleira,“ segir Ásthildur.

Og lært eitthvað líka?

„Heldur betur. Það er mjög margt sem við getum lært af okkar félögum í norðri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×