Erlent

Bólusetningar verði skylda í Bretlandi

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands.
Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands. Nordicphotos/Getty

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir að vel komi til greina að setja lög sem skylda foreldra til að bólusetja börn sín. Þetta sagði hann á landsþingi Íhaldsflokksins, sem fram fer í Manchester.

Á þinginu sagðist Hancock hafa miklar áhyggjur af hlutfallslegri fækkun þeirra foreldra sem bólusetja börn sín. Ábyrgðin vegna hættulegra smitsjúkdóma gæti ekki aðeins verið á höndum ríkisins heldur verði foreldrar að axla hluta hennar.

„Ég tel að það séu mjög sterk rök fyrir því að hafa skyldubólusetningar í skólum landsins,“ sagði Hancock. „Annars er verið að setja önnur börn í hættu.“

Bólusetningar hafa áður verið skylda í Bretlandi, til dæmis um miðja 19. öld þegar bólusett var fyrir bólusótt. Fyrir þremur árum var Bretland stimplað mislingalaust en landið missti stimpilinn á þessu ári eftir að hundruð mislingatilfella komu upp. Boris Johnson forsætisráðherra hefur heitið því að tryggja nægt bóluefni en margir óttast að skortur verði á mislingabóluefni eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.