Lífið

Síðhærður Will Ferrell í gulum regnfötum við tökur á Eurovision-myndinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Will Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara í myndinni.
Will Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara í myndinni. Vísir/Getty
Tökur eru hafnar á Eurovision-mynd bandaríska gamanleikarans Will Ferrell. Á myndum sem breskir fjölmiðlar birta frá tökustað í Edinborg í Skotlandi má sjá síðhærðan Ferrell í gulum regnfötum. Ferrell og Rachel McAdams leika íslenska söngvara í myndinni.

Töluvert hefur verið fjallað um hina væntanlegu grínmynd sem á að stórum hluta að gerast á Íslandi. Aðalleikarnir tveir eru sagðir leika hlutverk íslenskra söngvara sem fái tækifæri að taka þátt í Eurovision. Fjöldi þekktra Íslendinga mun leika í myndinni ásamt ýmsum bandarískum stórstjörnum.

Þá voru haldnar opnar prufur fyrir Eurovision-myndina á Húsavík í síðasta mánuði, og því líklegt að myndin verði að einhverju leyti tekin upp hér á landi.

Sjá einnigHjálpaði Ferrell og McAdams með íslenskan framburð fyrir Eurovision-myndina

Tökur eru sem fyrr hafnar í Skotlandi og á myndum sem breskir fjölmiðlar hafa birt á undanförnum dögum frá tökustað má sjá Ferrell og McAdams í mjög íslenskum aðstæðum. Þannig má sjá þau í grasi vöxnu klettabelti við hliðina á litlum torfbæ.

Ferrell skartar síðu hári og er hann klæddur í gulan regnjakka. Þá má sjá að Rachel McAdams er klædd í bláar bomsur og eitthvað sem lítur út fyrir að vera ullarpeysa.

Í frétt Daily Record segir að til standi að taka stóran hluta myndarinnar upp í Edinborg. Tilkynnt var í dag að loka þurfi götum í borginni í dag og á morgun á meðan tökur fara fram. Meðal leikara í myndinni eru Pierce Brosnan og Demi Lovato.

Myndir frá tökustað má sjá hér og hér.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.